Í síðustu færslu var farið yfir mannréttindi, samfélagslega ábyrgð og ávinning af góðu aðgengi að hugbúnaði og vefjum. Hér verður farið yfir nauðsyn þess að setja lög um aðgengi hér á landi og fjallað um hvað við getum lært af öðrum þjóðum.
4.1 Hvers vegna eru lög og regla?
Réttindabarátta fatlaðra hefur sannað að góðvild dugar skammt þegar í harðbakkann slær. Það var ekki fyrr en opinberum stofnunum í Bandaríkjunum var gert skylt að tryggja aðgengi starfsmanna sinna að upplýsingatækni að fyrirtæki á borð við Microsoft og Adobe tóku við sér. Upphaflega löggjöfin (Section 508 of the Rehabilitation Act) er takmörkuð og gölluð en áhrifa hennar gætir þó víða. Án hennar væri óvíst að PDF skrár væru aðgengilegar fötluðum. Aðgengislöggjöf skiptist í tvo flokka.
- Í fyrsta lagi má nefna lög sem kveða á um að vefsíður, snjallsímaöpp og rafræn skjöl uppfylli staðla eins og W3C Web Content Accessibility Guidelines 2.0. Accessibility for Ontarians with Disabilities Act (AODA) er annað gott dæmi. Löggjöfin nær yfir stofnanir og einkafyrirtæki í Ontario-fylki í Kanada. Ef vefsíður, skjöl og snjallsímaöppin þeirra uppfylla ekki WCAG 2.0 staðalinn má beita þau dagsektum upp á 100.000 Kanadadollara (um 10 milljón ISK). Löggjöfin byggir á sjálfsmati, skýrslum og eyðublöðum en ekki rannsóknum. Það er samdóma álit manna að löggjöfin hafi hindrað framfarir í aðgengi frekar en hitt.
- Í öðru lagi eru lög sem banna mismunun með óaðgengilegum vefsíðum og hugbúnaði. Eins og fram kom í fyrri bloggfærslu minni er grundvöllur slíkra laga samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann jafngildir lögum í þeim ríkjum sem fullgilt hafa samninginn. Sums staðar í heiminum er í gildi aðgengislöggjöf sem gengur lengra en samningurinn eða kveður nánar á um útfærslu hans.
4.2 Allt að gerast í Ameríku
Bandarísk hagsmunasamtök fatlaðra hafa náð að knýja fram ýmsar aðgengisumbætur í krafti aðgengislaga. Bandaríkjamenn eru brautryðjendur á sviði lögsókna vegna ófullnægjandi aðgengis þó þeir hafi ekki fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks en fyrir það hafa bandarísk stjórnvöld verið gagnrýnd harðlega. Helstu lög og reglugerðir um aðgengi þar í landi eru:
- Section 504 of the U.S. Rehabilitation Act skyldar stofnanir sem fá fjármagn frá hinu opinbera til að gera upplýsingar og þjónustu aðgengilegar öllum.
- Section 508 skyldar opinberar stofnanir til að kaupa tæki, tól og hugbúnað sem er aðgengilegur fötluðum starfsmönnum. Stofnanir verða því að meta aðgengi í innkaupum sínum. Þannig verður til markaður fyrir aðgengilegan hug- og vélbúnað.
- Americans with Disabilities Act (ADA) tryggir rétt allra til aðgengis að þjónustu sem látin er almenningi í té.
- Air Carrier Access Act (AACA) skyldar flugfélög sem fljúga til og frá Bandaríkjunum að gera alla þætti þjónustu sinnar aðgengilega frá og með 12. desember 2015.
- 21st Century Communications and Video Accessibility Act (CVAA) tryggir aðgengi að textun margmiðlunarefnis og að snjallsímum og spjaldtölvum sem bjóða upp á vafra.
Viðamikil aðgengislöggjöf gildir í löndum eins og í Bretlandi, Kanada , Nýja Sjálandi og Ástralíu. Skoða má lista yfir yfir aðgengislög í ýmsum löndum á vef LF Legal.
4.3 Aðgengi og dómsmál
Fyrsta dómsmál sögunnar sem tengist vefaðgengi beint var höfðað í Ástralíu vegna vefs Ólympíuleikanna í Sydney árið 2000. Vefsvæðið var afar óaðgengilegt blindum notendum. Dómurinn féll kæranda í vil. Í Bandaríkjunum vannst mál gegn Target verslunarkeðjunni árið 2006 vegna þess að vefsvæðið var óaðgengilegt. Fyrirtækinu var gert að greiða 8 milljónir dollara (jafnvirði um 970 milljónir isk.) í skaðabætur og gera vefsvæðið aðgengilegt. Árið 2012 var Netflix gert að texta allt margmiðlunarefni sem hægt er að streyma í gegnum vefsíðu þess. Í mars 2012 var H&R Block sem aðstoðar einstaklinga við skattframtöl gert að greiða háar sektir og að gera vefsvæði sitt og snjallsímaöpp aðgengileg. Í apríl síðastliðnum var stofnuninni sem sér um inntökupróf í lögfræðinám á háskólastigi (LSAT próf) gert að greiða 9 milljónir dollara (um 1,1 milljarður ISK) í sekt vegna mismununar, m.a. vegna skorts á aðgengi að rafrænum prófum. Dómsmálum vegna ónógs aðgengis fer fjölgandi í Bandaríkjunum og snerta ekki lengur aðeins aðgengi blindra og sjónskertra heldur einnig fólk með heyrnarskerðingu og lesblindu. Lesa má um helstu aðgengisdómsmál á síðastliðnum árum á vefnum og dómsmál síðustu 6 mánaða.
4.4 Lög eru eitt, aðgengi annað
Lagasetning dugar skammt nema henni sé fylgt eftir. Fárviðri braust út á Twitter þegar í ljós kom að Undirskriftasíða Hvíta Hússins fyrir betra aðgengi blindra og sjónskertra að bókum var þeim óaðgengileg. Meðal vefsvæða sem hagsmunasamtök hafa kært vegna aðgengisskorts er vefsvæði stofnunarinnar sem sér um framkvæmd aðgengislaganna sjálfra og Social Security Administration sem jafngildir Tryggingastofnun hér á landi.
4.5 Aðgengislöggjöf, Evrópusambandið og Ísland
Þó lönd innan ESB hafi sett sér aðgengislöggjöf er engin löggjöf í gildi um aðgengi hjá sambandinu sjálfu. Breytinga er þó að vænta. Tilskipun um aðgengi opinberrar rafrænnar þjónustu og almenningsþjónustu einkaaðila hefur verið samþykkt af Evrópuþinginu og er í ferli hjá Framkvæmdastjórn ESB. Undirritaður lagði mikla vinnu í athugasemdir við tilskipunina fyrir hönd hagsmunasamtaka fatlaðra í Evrópu og voru þær teknar til greina. Tilgangurinn er m.a.:
- Að staðla aðgengiskröfur svo auðveldara verði að uppfylla þær
- Að tryggja eftirlit
- Að tryggja að löggjöfin gildi um allar þjónustuleiðir s.s. vefsvæði, snjallsímaöpp, samfélagsmiðla o.s.frv.
- Að beita þá sem ekki uppfylla tilskipunina viðurlögum
Tilskipunin tekur í fyrsta lagi gildi eftir 2 til 3 ár. Síðan fá hagsmunaaðilar nokkurra ára frest til að fara eftir henni. Líklegt er að tilskipunin gildi fyrir íslenska aðila. Þú getur hlaðið niður kynningu á Evróputilskipuninni sem undirritaður hélt á CSUN 2014 ráðstefnunni síðastliðið vor.
4.6 Allt með kyrrum kjörum á Fróni
Á Íslandi er engin löggjöf um aðgengismál og aðgengi er ekki metið í innkaupum hins opinbera. Aðgengi er skoðað á opinberum vefsvæðum á tveggja ára fresti en enginn heldur utan um ábendingar sem berast vegna skorts á aðgengi enda eru engin viðurlög við slíku. Skortur er á fræðslu- og námsefni tengdu aðgengi. Þó kafli um aðgengi sé í Vefhandbókinni dugar það skammt. Af framansögðu er ljóst að reglur þurfa að tryggja lágmarks aðgengi og fylgjast þarf með framkvæmd þeirra. Regluverkið á að vera einfalt og því þarf að fylgja fræðsla. Ennfremur þarf að skapa markað fyrir aðgengilega upplýsingatækni með því að hið opinbera geri kröfu um slíkt í innkaupum sínum.
Í síðustu færslunni um þessi mál í bili mun ég fjalla um af hverju fólk hræðist aðgengi, hvað gera þarf til að einfalda aðgengisfræðslu og prófanir. Einnig mun ég benda á nokkur einföld atriði sem hafa ber í huga í hönnun vefsvæða.
—Birkir Rúnar Gunnarsson