Kafli 3: Ísland er eftirbátur í aðgengi að upplýsingatækni

Það þýðir ekkert að fara Hægt og hljótt í aðgengisumræðuna. Best að halda áfram með látum þar sem frá var horfið. Ég var búinn að fjalla um að gott aðgengi er góður bissness en þeirri grein var ætlað að vera gulrótin en nú er kominn tími á það sem kalla mætti prikið. Ég vona samt að Þú og þeir hafi ekki gleymt aðgengismálunum í fjarveru minni, en ég á líf og undanfarið ár hef ég staðið í stórræðum í verkefnum sem tengjast aðgengismálum:

Nýjasta verkefnið er að reyna troða öllu því sem ég hef um aðgengismál að segja í tuttugu og fimm mínútna fyrirlestur á Haustráðstefnu Advania. Þeir sem lesa bloggin mín vita að það er ekki auðvelt. Þegar erillinn er mikill þá verður manni ljóst að tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Svo er mikilvægt að hugsa um fjölskylduna en heimasætan hér heitir einmitt Nína. Ætli það sé tilviljun?

Nú vil ég undirstrika samfélagslega ábyrgð og ávinning samfélagsins af aðgengilegri upplýsingatækni.

3.1 Aðgengi að upplýsingum er grundvallarmannréttindi

Fjórða, níunda og tuttugasta og fyrsta grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði þann 30. mars, 2007 kveður á um réttindi fatlaðra að aðgengi að opinberri þjónustu. Áhersla er lögð á rétt allra til aðgengis að upplýsingum og upplýsingatækni. Ef þjónusta, rafræn þjónusta þar með talin, mismunar fólki jafngildir það mannréttindabrotum og skapar lagalegan grundvöll til lögsóknar innan þeirra ríkja sem fullgilt hafa samninginn.

3.2 Ísland langt á eftir

Þó Ísland hafi skrifað undir samninginn fyrir 7 árum hefur fullgilding hans látið á sér standa. Ísland er því á eftir löndum á borð við Namibíu, Íran og Írak en þessi lönd hafa, ásamt meira en 100 öðrum, fullgilt samninginn. Grundvöllur til málsókna vegna aðengisleysis er því til staðar í flestum nágrannalöndum okkar. Vonir standa til að Ísland innleiði samninginn í ár.

3.3 Mikilvægi rafrænnar þjónustu

En því skiptir aðgengi að rafrænni þjónustu svona miklu? Um heim allan leitar hið opinbera leiða til að hagræða og lækka kostnað án þess að skerða þjónustu. Notendur fá að mörgu leyti betri þjónustu með rafrænum hætti enda er slík þjónusta til staðar hvenær og hvar sem séu menn nettengdir. Fyrir þá sem veita þjónustuna er rafræn þjónusta góður kostur enda má lækka kostnað verulega með henni. Frá árinu 2012 hefur danska ríkið fært ýmsa þjónustu t.d. tilkynningar um flutninga, umsóknir um skilríki og umsóknir um samfélagsþjónustu yfir í rafræna sjálfsafgreiðslu. Frá og með 1. desember 2015 verður aðeins hægt að sækja um 80 gerðir opinberrar þjónustu á rafrænan máta nema sótt sé um undanþágu. Danir búast við að yfir 80% allra umsókna fari í gegnum rafræna sjálfsafgreiðslukerfið og að árlegur sparnaður verði um 900 milljónir danskra króna eða u.þ.b. 18 milljörðum íslenskra króna. Þá er innleiðingakostnaður tekinn með.

Gott aðgengi fatlaðra að rafrænni þjónustu ryður úr vegi aðgengisvandamálum tengdum almenningssamgöngum og byggingum. Slæmt aðgengi að rafrænni þjónustu þýðir á hinn bóginn að stór hópur notenda útilokast nær alveg. Danir hafa áttað sig á þessu og leggja áherslu á greitt aðgengi að sjálfsafgreiðslunni. Ísland hefur allt sem þarf til að innleiða svipaðar lausnir í hagræðingarskyni. Það er mikilvægt að ef og þegar farið verður út í rafræna sjálfsafgreiðslu hér á landi verði aðgengi tryggt á öllum stigum.

3.4 En er þetta ekki dýrt og ógerlegt?

Markmið með góðu aðgengi er að veita fólki tækifæri til þess að láta drauma sína um menntun, störf, frægð og frama rætast. Atvinnuþátttaka og menntunarstig fatlaðra er lægra en gengur og gerist sem er dýrkeypt fyrir fatlaða og samfélagið allt. Áströlsk skýrsla um þjóðfélagslegan ávinning af aukinni þátttöku fólks með fötlun sem gerð var af Deloitte fyrir samtökin "Australian Network on Disabilities" sýndi að með því að auka atvinnuþátttöku fatlaðra úr 54% upp í 64% myndi þjóðarframleiðsla Ástrala vaxa um u.þ.b. 43 milljarða þarlendra dollara. Evrópskar rannsóknir benda til að beinn og afleiddur samfélagslegur ávinningur af fullu aðgengi að rafrænum upplýsingum og þjónustu með aukinni samfélagsþátttöku fólks með fötlun sé gríðarlegur, eða um 413 milljarðar evra. Kostnaður fyrir einstakar stofnanir og fyrirtæki getur þó orðið umtalsverður, eða á bilinu 6 til 16% af heildarútgjöldum, allt að 3 milljörðum Evra. Hins vegar ber að hafa í huga að kostnaður við aðgengisútfærslur er talin innan við 3% af heildarkostnaði verkefna ef hugað er að aðgengi frá upphafi (meira um það síðar).

3.5 Skylda stjórnvalda að bæta aðgengi

Það er skylda stjórnvalda að berjast fyrir bættu aðgengi að upplýsingum, einkum á vefsvæðum, í öppum og rafbókum. Sé rétt haldið á málum felur það í sér mikinn ábata fyrir fatlaða og samfélagið í heild sinni. Stjórnvöld verða að hafa mannréttindi, hagræðingu og hagvöxt til hliðsjónar við ákvarðanatöku og stefnumótun. Hagsmunasamtök fatlaðra vona að aðgengi verði þar lykilatriði enda bendir allt til þess að það uppfylli öll þessi skilyrði eins og fyrr er getið.

3.6 Hver er staðan á Íslandi?

Þrátt fyrir stefnuyfirlýsingar sem hljóma vel hefur aðgengi vefsvæða opinberra stofnanna á Íslandi ekki batnað mikið á síðustu árum og er almennt talsvert langt frá þeim markmiðum sem stefnt er að. Af þeim hundruðum milljóna króna sem ríkið hyggst setja í uppbyggingu upplýsingatæknisamfélags á næstu þremur árum fara að óbreyttu heilar núll krónur í að bæta aðgengi fólks með fötlun að upplýsingatækninni. Gleymum því ekki að um 10 til 15% þjóðarinnar gæti hagnast á því, og sá hópur fer stækkandi með hækkandi meðalaldri. Aðgengismálum á Íslandi er því miður ekki gert nógu hátt undir höfði en ef dæma má af rannsóknum og reynslu nágrannaþjóða okkar má búast við því að breytingar séu í vændum. Það er því mikilvægt fyrir þá sem þróa vef-og hugbúnaðarlausnir fyrir opinbera geirann að skoða þessi mál gaumgæfilega og byrja strax í dag.

—Birkir Rúnar Gunnarsson