Nú er aðgengisátak í gangi víða um heim. Reglugerðir sem kveða á um lámarksaðgengi að vefsíðum og annarri rafrænni þjónustu eru í vinnslu eða hafa þegar tekið gildi. Mikil vinna er lögð í að staðla aðgengi, fella aðgengis- og stoðtækni í snjallsíma og spjaldtölvur og aðra þá tækni sem getur tryggt okkur öllum aðgang að frægð og frama, skemmtun, vinnu, leik og menntun. Mig langar samt sem áður að nálgast viðfangsefnið á persónulegri hátt en oftast er gert og geyma til síðari tíma umfjöllun um tæknileg atriði rafrænna aðgengismála.
Ég vil gefa fólki tilfinningu fyrir því hvernig hugbúnaður, vefsíður, samskiptaforrit og annað sem við í tölvubransanum vinnum við að framleiða getur haft gríðarleg áhrif á líf fólks. Með öðrum orðum þá langar mig til að útskýra af hverju ég er svo spenntur fyrir því að starfa við aðgengisráðgjöf, af hverju ég er orðinn rafviti eins og ég vil kalla það.
1.1 Sjónin fór í frumbernsku
Þegar ég var pínulítill patti missti ég alfarið sjónina meðan mamma var enn að vagga mér í vöggu (já, það var kartöflugarður heima þó hann væri lítill). Ég missti annað augað þegar ég var 5 mánaða en með herkjum og geislun tókst að halda sjón í hinu auganu að einhverju leyti þar til ég var fimm ára.
Upp úr 12 ára aldri fór ég fyrst að fikta í tölvum en áður hafði ég hamrað á háværar punktaletursritvélar. Í fyrstu virkuðu tölvur flóknar og furðulegar á mig en fljótlega fór ég að sjá kostinn í því að geta notað þær. Með þeim gat ég til dæmis skrifað ritgerðir og annað efni, prentað út fyrir kennara og kollega, fengið námsefni á aðgengilegu rafrænu formi beint frá kennurum eða jafnvel bókaútgefendum. Netspjallið (IRC) heillaði mig þó mest. Með hjálp tækninnar tókst mér að komast í gegnum Verzló með ágætum en sífellt meiri tími fór í að nördast á netinu, svona eins og gengur hjá 18 ára nördum.
1.2 Á ircinu fann ég ástina og hljómsveitina Pulp
Ég hitti fyrstu kærustuna mína í gegnum irc-ið og lenti svo á spjallrás hljómsveitarinnar Pulp með alls konar fólki hvaðanæva úr heiminum. Meðal annarra var dama ein frá Pakistan sem var að klára tölvunarfræði í Yale háskólanum. Þarna datt mér í hug að sækja um inngöngu í Yale, ekki dömunar vegna (ég hef aldrei hitt hana) en bara af því það virkaði svo brjálæðislegt og fjarstæðukennt að ég ætti möguleika á inngöngu. Á sama tíma ákvað ég taka tölvunarfræðina (þó ég hefði aldrei fiktað í forritun) svo ég gæti hjálpað til við að veita öðrum svona tækifæri í framtíðinni. Ég komst inn í Yale í annarri tilraun og var þá búinn að fá nasaþefinn af tölvunarfræði í Háskóla íslands.
1.3 Í Yale vopnaður Programming for Dummies
Út var farið haustið 1998 og maður réðst í námið af mikilli orku og bjartsýni. Einn fyrsti tölvunarfræðikúrsinn í Yale er frægur fyrir hvað hann er erfiður. Eftir margar andvökunætur, svitaböð og stress náði ég en viðurkenni nú í fyrsta skipti opinberlega að ég fékk C- í einkunn. Ég ætlaði að hætta við en prófessorinn minn tók mig á eintal og sagði mér að slaka á og halda áfram. Ég hefði komið í námið of illa undirbúinn en ég gæti þetta alveg. Stuttu síðar uppgötvaði ég "for dummies" eða "fyrir vitleysinga" bækurnar um forritun. Eftir að hafa viðurkennt fyrir sjálfum mér að ég væri nógu vitlaus til að prófa þessar bækur fóru hlutirnir að ganga betur (ég mæli mjög með þessum bókum fyrir þá sem vilja byrja að læra forritun). Mér fór að ganga þolanlega í tölvunarfræðinni og fékk aldrei C- í einkunn aftur. Árið 2002 útskrifaðist ég með B.S. gráður í tölvunarfræði og hagfræði. Ég fékk starfstilboð frá banka í Bandaríkjunum hálfu ári fyrir útskrift.
1.4 Íslenski pakkinn tekinn með trompi
Aðgengismálin gleymdust um sinn. Starfið hjá ameríska bankanum fólst að mestu í forritun á virkni bak við miðlunarkerfi bankans þar sem ég lærði mikið um samvinnu og hugbúnaðargerð. Stundum sat maður við tölvuna og fannst ótrúlega spennandi að kóðinn minn væri notaður af fólki sem braskaði með milljarða dollara virði af veðlánsbréfum. Maður var fljótur að gíra sig frá þessari hugsun þegar bankinn fór í þrot. Ég hafði þá hitt tilvonandi eiginkonu mína á netinu og við ákváðum að flytja saman til íslands.
Á Íslandi náðum við að festa kaup á íbúð með myntkörfuláni, eignast okkar fyrsta son og ég náði að vinna í um 18 mánuði fyrir Glitni í áhættustýringu. Í mínu starfi einbeitti ég mér að nota hugbúnaðargerð til að einfalda margt sem áður þurfti að gera handvirkt. Við ákváðum að fara aftur til útlanda og íslenska bankakerfið fór í steik og rúmlega það!
1.5 Netið opnaði veröldina upp á gátt
Á meðan frúin hefur verið að vinna hörðum höndum að barneignum (við eigum núna þrjú stykki) og ná sér í doktorspróf í heimspeki ákvað ég að ekki þýddi að sitja auðum höndum. Eftir að hafa velt fyrir mér að taka próf í áhættustýringu ákvað ég að hugurinn stæði einfaldlega ekki lengur til bankageirans. Ég fór að hugsa um hvað aðgengi að tölvutækninni hafði gert fyrir mig. Í gegnum hana eignaðist ég vini, fann eiginkonuna mína, komst í einn virtasta háskóla í heimi, vann eitt sumar fyrir Microsoft og lenti í boði heima hjá Bill Gates. Allt þetta hefði aldrei gerst hefði ég ekki getað haft aðgang að tölvutækninni og netinu.
1.6 Tekið á aðgengismálum
Ég fór að kvarta yfir slæmu aðgengi að nokkrum vefsíðum á miðlum Blindrafélagsins en formaður þess stakk þá upp að ég gengi fram fyrir skjöldu og gerði eitthvað í málinu. Hann bauð mér meira að segja 15% starfshlutfall til að sinna þessu. Þetta starfshlutfall fór hratt og stöðugt hækkandi. Síðan þá hefur leiðin verið afar spennandi og skemmtileg.
Ég hef hitt fjöldan allan af fluggáfuðu fólki og sótt margar ráðstefnur erlendis (Þessi færsla er skrifuð um borð í U.S. Airways flugvél á leið til San Diego). Það sem mér hefur þótt mest spennandi er hversu marga aðgengismálin snerta.
The Worldwide Web Consortium, eða W3C, hefur lagt hart að sér að staðla aðgengi á mælanlegan hátt og tryggja þannig aðgengi risastórs hóps fólks að netinu. Það eru ekki bara blindir tölvunördar, heldur einnig sjónskertar húsmæður, heyrnarlausir sundkappar, fólk með lesblindu, litblindu, athyglisbrest, eldri borgarar sem áður áttu erfitt með að komast á netið en pósta nú á Facebook daglega, kaupa sér vörur og reyna jafnvel fyrir sér í tilhugalífinu á netinu. Aðgengi snertir alveg örugglega einhvern sem þið, lesendur góðir, þekkið, og það er næsta víst að með hækkandi aldri, versnandi sjón, skertri heyrn en með fullum áhuga á samfélaginu og mikilli lífsorku kemur aðgengi til með að snerta ykkur líka.
1.7 Gerum kraftaverk fyrir annað fólk
Bætt aðgengi að tækifærum getur stórminnkað hóp öryrkja, gert öldruðum kleift að vinna lengur, hækkað mentunarstig almennt, sparað stórkostnað í opinberri þjónustu, aukið fjölda hugsanlegra viðskiptavina um 10 til 15% o.s.frv. Ástæðurnar fyrir því að gera aðgengisumbætur á vefjum eru margvíslegar en mikilvægasta grunnástæðan fyrir góðu aðgengi er ætíð sú sama. Hún er einfaldlega sú að með góðu aðgengi er verið að gera kraftaverk í lífi einhvers hvort sem það er einhver sem þið hafið aldrei hitt, einhver sem er ykkur kær, eða jafnvel framtíðarútgáfa af sjálfum ykkur.
1.8 Kominn í draumastarfið
Ég hef lagt hart að mér að læra um aðgengisstaðla, skoðað aðgengislausnir, þróað vefsíðuhluti, Javascriptur, JQuery hluti og margt annað. Nú tel ég mig loks hafa nægjanlega reynslu og þekkingu til að veita þeim sem hafa áhuga á aðgengismálum sérfræðiráðgjöf varðandi aðgengisprófanir, lagfæringar og úrbætur. Talandi um draumastarfið!
—Birkir Rúnar Gunnarsson