Kafli 8: Leitar­véla­bestun

Þegar búið er að smíða vef verður það oft krafa að hann komi fram í leitarniðurstöðum þegar leitað er að ákveðnum lykilorðum. Leitarvélabestun er það þegar efni er meðhöndlað þannig að það komi frekar fram í leitarniðurstöðum og sem efst. Leitarvélar horfa til mörg hundruð breytna þegar ákveðið er hvaða vefir komi upp við leit, en þó við vitum ekki nákvæmlega hverjar þessar breytur eru, þá getum við haft áhrif á þær að einhverju leyti. Almennt er reglan sú að það eru engir galdrar, engin örugg leið til að vera #1 og að ef það hljómar of gott til að vera satt… þá er það það.

Merkingarfræðilegt HTML er grunnurinn sem góð leitarvélabestun byggir á. Á eftir því kemur gott efni sem er skipulagt, læsilegt og einstakt. Skipulagt að því leiti að lýsandi titlar brjóta það upp í einingar, læsilegt með því að vera ekki of langt eða flókið og einstakt þar sem það kemur ekki oft fyrir á sama vefnum og fjallar um þau lykilorð sem við einblínum á og ekki of mörg í einu.

Titillinn á vefsíðunni (<title>) sem inniheldur efnið okkar ætti að vera lýsandi (lykilorð að koma fram) og allar fyrirsagnir að vera einstakar og hnitmiðaðar. Nota skal rétt heading element, <h1> til <h6>. Allir tenglar á vef ættu að falla inn í textann eins og hægt er (ekki útbúa <a href="">smelltu hér!</a> tengla) og vera lýsandi fyrir það efni sem tengt er í. Myndir ættu að vera skilgreindar á aðgengilegan máta með alt texta.

Lýsigögn fyrir vef ættu að vera sett upp fyrir helstu þjónustur, t.d. Facebook og Twitter, sem oft á tíðum nota eitthvert staðlað form eins og OpenGraph (sem er þó viðhaldið af Facebook). Einnig er hægt að setja lýsingu á vef í <meta name="description"> og mun t.d. Google nýta þann texta til að birta með leitarniðurstöðum að einhverju leiti.

Minnstu upplýsingar sem ætti að skilgreina fyrir vefi svo helstu þjónustur birti viðeigandi upplýsingar eru titill, lýsing og mynd. Þar sem engin óháður staðall er til fyrir þetta þarf að bæta við öllu þrennu fyrir báðar þjónustur:

<meta property="og:title" content="Titill fyrir Facebook">
<meta property="og:description" content="Lýsing fyrir Facebook">
<meta property="og:image" content="http://example.com/img.jpg">
<meta name="twitter:title" content="Titill fyrir Twitter">
<meta name="twitter:description" content="Lýsing fyrir Twitter">
<meta name="twitter:image" content="http://example.com/img.jpg">

Þegar verið er að bæta við þessum upplýsingum er oft nauðsynlegt að gera ítrekað breytingar meðan verið að ná hlutunum réttum.

Flestar aðrar þjónustur nýta það sem kemur frá Facebook eða Twitter. Það að „fletja út“ þessar upplýsingar til birtingar fyrir notandur er stundum kallað unfurling.

Slóðir (URL) á vefi ættu að vera einfaldar og skiljanlegar, https://example.org/vorur/simi-utgafa-x, ekki https://example.org/?productid=123. Forðast ætti það að dreifa efni á margar slóðir: það ætti aðeins að vera aðgengilegt á einni, viðurkenndri (canonical) slóð. T.d. ætti efni ekki að vera aðgengilegt á vef og líka sér „m“, eða mobile vef. Ef ekki verður komist hjá því að hafa efnið aðgengilegt á fleiri en einni slóð er hægt að nota áframsendingar og það að merkja með <link rel="canonical" href="...">. Sjá nánar á Google: Building Smartphone-Optimized Websites. Eftir að við höfum á einum tímapunkti gert efni aðgengilegt á slóð, ættum við að reyna eins og við getum að koma í veg fyrir að það hætti að vera aðgengilegt á þeirri slóð, t.d. með því að nota áframsendingar, því eins og Tim Berners-Lee sagði, Cool URIs don't change.

Til að hjálpa ennfremur til getum við skilgreint veftré fyrir leitarvélar í sitemap.xml, sem er þá tæmandi listi yfir þær síður sem vefurinn okkar inniheldur. Leitarvélar fá þá betri mynd af því hvaða efni er til staðar og hvenær það breytist. Að sama skapi getum við skilgreint robots.txt skrá sem takmarkar eða stýrir að einhverju leyti hvernig leitarvélar og aðrir róbótar sem heimsækja vefi láta, t.d. hversu oft þeir ættu að sækja efni og hversu mikið í einu. Einnig ætti að búa til villusíður, t.d. fyrir 404 villur, ef síða finnst ekki.

Eftir að vefur fer í loftið getum við sett upp og nýtt okkur hin ýmsu tól til að fylgjast með, t.d. fjölda heimsókna, hvaðan komið er og villum sem koma upp. Með því að nota þau gögn getum við brugðist við, aðlagað efni og mætt betur raunþörfum fólks sem heimsækir vefinn. Þá er einnig hægt að gera tilraunir til að bæta vefina okkar, t.d. A/B testing.

Frekari upplýsingar má lesa í Search Engine Optimization Starter Guide frá Google, Beginners Guide to SEO eða með því að finna efni sem hefur verið vandlega bestað fyrir leitarvélar á vefnum.